Þessi pizza er svo mikið betri en allar aðrar pizzur sem ég hef fengið, þó ég segi
sjálfur frá. Hún krefst lágmarks 2 daga fyrirvara, en sá biðtími er algerlega þess virði.
Þetta er líklega það vinsælasta sem ég geri úr súrdegi og þá er mikið sagt. Ég geri
oft tvöfalda uppskrift bara til að eiga afganga næstu daga. Þessar pizzur eru
guðdómlegar af grillinu þó það megi vissulega setja þær líka inní ofn. Degið má líka
nota í margt annað t.d. til að grilla pylsur í eða bara sem grillað brauð.
P.S: Ég hef nú bætt við aðra aðferð til að gera pizzuna á en betri en þó flóknari uppskrift sem er þó algerlega þess virði þá sérstaklega fyrir stóra fjölskyldu eða matarboð þar sem margir geta hjálpast að.
Hráefni
Súrdeigsgrunnur 100g
Vatn 350 g
Hveiti 300 g
Heilhveiti 200 g
Salt 5g
Aðferð
1. Gefið súrnum að borða 7-10 klst fyrir notkun
2. Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í ca 15 mínútur í hrærivél
3. Geymið inní ísskáp í 2-4 daga
4. Skiptið deiginu niður og fletjið út á plötur eða á grillpönnu (ath deigið er blautt svo gott er að nota puttana til að teygja það um á plötunni og best er að dýfa fingurgómunum aðeins í vatn á milli)
5. Setjið álegg á eftir smekk
6. Setjið inní ofn á 220° eða á grill í 15-20 mínútur
Aðferð uppærð
Framkvæmið skref 1-3 eins og í upphaflegu aðferðinni
Skiptið deiginu niður í og mótið margar litlar kúlur pizzurnar eru mun minni og fleiri en í hinni uppskriftinni. Mótið kúlurnar mjög vandlega og passið ykkur að hnoða degið ekki til að missa ekki út loftið
Setjið á plötu og viskustykki yfir og látið standa í 1 klst
Þá hefst fjörið: hitið ofinn í hæðsta hita og ef þið eigið pizzastein setjið þið hann inní en ef ekki þá takið þið bökunarplötu og snúið henni öfugt inní ofni
Takið fyrstu kúluna og mótið pizzu með að láta degið falla undan þunga sínum. líkt og Patrick Ryan gerir hér.
Setjið polenta eða pizzuhveiti á bretti og degið ofaná það og klárið að móta degið, passið að degið sé alltaf laust frá brettinu
Ég mæli með að mynda keðju, 1-2 sjá um að móta pizzurnar svo sjá aðrir um að setja á þær og þriðji hópurinn um setja inní ofn og taka útúr honum
Pizzurnar þurfa ekki mikinn tíma inní ofni, einungis örfáar mínútur
Þar sem pizzurnar eru litlar og margar er þetta kjörið tækifæri til að prófa alls konar tilraunir sem ykkur hefur lengi langað til að prófa en aldrei þorað, eða jú bara til að hreinsa til í ísskápnum
コメント