Kókosmöndlukaka (glútenlaus)
- Baldur Sverrisson
- Mar 12, 2019
- 2 min read
Þegar ég kaupi eitthvað sem ég er ekki vanur að kaupa þá verð ég bara að nota það, þessvegna á ég t.d. aldrei afgang af nammi daginn eftir. Hráefnið sem ég á núna er kókoshveiti og ég hef ekki getað hætt að láta mér detta í hug uppskriftir til að nota það. Ég gerði meðal annars orkukúlur (uppskrift kemur fljótlega) og ég átti hveitið að sjálfsögðu til til að gera glútenlausa súkkulaðiköku sem sló í gegn um daginn. Ég var hins vegar ekki 100% sannfærður um að ég væri á réttri leið með þessa köku þannig ég ákvað að nota samstarfsmenn mína sem tilraunadýr á starfsdegi. Þeirra dómur var einróma um að þessi kaka væri frábær og því hef ég engar áhuggjur með að deila henni með ykkur. Svo er kakan að sjálfsögðu glútenlaus sem er alls ekki verra
Hráefni
2 kökur
Smjör við stofuhita 1 bolli
Púðursykur 1 bolli
Sykur 1 bolli
Sítrónudropar 1/2 tappi
Egg 5 stk
Kókoshveiti 1 bolli
Möndlumjöl 1 bolli
Matarsódi 1 tsk
Lyftiduft 1/2 tsk
Salt klípa
Kókosmjólk 2 bollar (má nota aðra mjólk ef ykkur finnst það betra)
Krem
Eggjarauður 5 stk
Flórsykur 100 g
Súkkulaði 200 g
Smjör 100 g
Aðferð
Kakan
Þeytið saman smjör, sykur og sítrónu þar til blandan verður létt og ljós
Blandið eggjunum saman við smjörblönduna, einu í einu og hrærið vel á milli
Blandið þurrefnunum og mjólkinni saman við blönduna með sleikju
Setjið í 2x 20-25 cm form
Setjið inní forhitaðan ofn á 200°C og blástur í 35 mínútur eða þar til þið stingið prjón í kökuna og hann kemur hreinn út
Kremið
Bræðið saman súkkulaðið og smjörið
Þeytið eggjarauður og flórsykur þar til blandan verður þykk og hvítleit
Stillið hrærivélina á hægustu stillingu og bætið súkkulaðiblöndunni saman við
Hellið yfir kökurnar þegar þær hafa kólnað. Helming yfir hvora, það má líka gera tveggja hæða köku úr þessu og stetja þá krem yfir og á milli
Skreytið kökuna með kókosflögum og berið fram, gott getur verið að geyma kökuna í ísskáp yfir nótt

Comments