Ég hélt alltaf að lauksúpa væri súpa sem bragðaðist eins og laukur, það var ekki fyrr en ég sá hvernig hún er gerð að ég áttaði mig á hversu rangt ég hafði fyrir mér. Ég ákvað þá að smakka hana og varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Það er fullkomið jafnvægi bragða og það skemmir ekki fyrir að hún er frábær afsökun til þess að borða fullt af brauði með bræddum osti. Þessi uppskrift er hundraðasta uppskriftin sem við deilum á síðunni á þeim 18 mánuðum síðan við byrjuðum.
Hráefni
Laukur 2kg
Olía 1 msk
Smjör 40g
Salt 10g
Vatn 2l
Kjötkraftur 2 teningar
Timían 1 búnt
Soyjasósa 1 msk
Önnur krydd (t.d. steinselja, gulrætur, hvítlaukur og piparkorn)
Hvítvín 2dl
Eplasídersedik 2 dl
Hveiti 1 msk
Smjör 40g
Borið fram með
Brauð, ég mæli með að nota súrdeigsbrauð
Ostur (gott að hafa góðan ost, jafnvel blanda saman ostum sem eru í uppáhaldi)
Aðferð
Skerið laukinn. Það er mikilvægt að skera hann rétt fyrir sem besta útkomu. Laukurinn er fyrst skorinn í tvennt frá enda í enda, semsagt það sem snýr upp og niður á lauknum. Ysta lagið er síðan tekið af. Laukirinn er síðan skorinn þunnt þannig að hnífurinn snýr enda í enda, þannig myndast náttúrulegar sneiðar.
Olíu og smjör er brætt í potti og lauknum er síðan bætt út í ásamt salti. Haldið pottinum á miðlungsháum hita og hrærið reglulega. Laukurinn er til þegar hann er orðinn ljósbrúnn (tekur ca 45 mínútur af þolinmæði), en það er þó hægt að elda hann lengur til að hann verði enn dekkri. Svo má, ef þolinmæðin er alveg á þrotum, svindla með því að bæta smá sykri útí til að flýta fyrir.
Á meðan laukurinn er að karamellíserast er kjötkrafti og vatni blandað saman í öðrum potti (Þið getið skipt kjötkraftinum út fyrir t.d. sveppakraft ef þið viljið halda þessu sem grænmetisrétt). Soðið er síðan hitað ásamt timían, sojasósu og öðrum kryddum. Geymið edikið og hvítvínið, það fer ekki þarna út í. Hrærið vel og setjið síðan lok á þegar blandan er tilbúin. Soðið er sigtað áður en það fer út í súpuna sjálfa svo það er um að gera að setja t.d gulrætur og annað útí til að auka bragð.
Þegar laukurinn er til er hveiti stráð ofan í og hvítvíni og ediki er bætt saman við og skafað duglega af botninum.
Því næst er krafturinn sigtaður útí.
Smjöri er síðan bætt útí.
Það eru til tvær aðferðir til að klára súpuna eftir því hvort þið eigið ofnskálar eða ekki
Ef þið eigið ofnskálar pensliði olíu á brauðið og ristið í ofni á báðum hliðum þar til það er gullinbrúnt. Setjið súpu í skál og leggjið brauð ofaná ásamt vel af rifnum osti og setjið inní ofn á grillstillingu í ca 2 mínútur.
Án ofnskála er brauðið ristað á sama hátt, osturinn er síðan rifinn ofaná og brauðið sett aftur inní ofn á grillstillingu. Þetta er síðan lagt ofaná súpuna.
Opmerkingen